Hverfahátíðin

Hverfahátíðin á Seyðisfirði er skemmtileg fjölskylduhátíð sem á sér stað í ágúst ár hvert. Leikir, dans, tónlist, grill, brenna og samsöngur er meðal þess sem hátíðin býður upp á. Hverfin í bænum keppa um titilinn: Hverfi ársins.

Hvert hverfi hefur sína einkennisliti; bleikan og fjólubláan, grænan og appelsínugulan eða bláan og rauðan. Heimamenn skreyta hús sín og garða í hverfalitunum sem gefur bænum hátíðlegan blæ. Hægt er að fá stig fyrir vel skreytt hús og gaman er að spássera um bæinn og skoða skreytingarnar hjá þeim metnaðarfyllstu. Bæjarbúar mæta einnig klæddir hverfalitunum á Hverfahátíðina.